Stórhöfðaviti
  • Storhofdi-vef

Stórhöfðaviti

Stórhöfðaviti var byggður árið 1906 af Gísla J. Johnsen kaupmanni í Vestmannaeyjum eftir teikningum dönsku vitamálastofnunarinnar og danskir tæknimenn komu ljóstækjum fyrir. Mannvirki það sem þá reis var steinsteypt hús með vitaturni, 7,2 m að hæð með viðbyggingu fyrir vitavörð sem í fyrstu dvaldi þar einsamall. Árið 1910 var byggt bárujárnsklætt timburhús yfir vitavörð og fólk hans enda var þá kominn fjölskyldumaður í vitavarðarstarfið. Nýtt vitavarðarhús var byggt árið 1931 og var það stækkað árin 1964–1965 í núverandi horf.

Upphaflegt ljóshús vitans var danskt og einnig ljóstækin sem voru steinolíulampi með tveimur kveikjum og einföld snúningslinsa, 600 mm í þvermál, sem enn er í honum. Vitinn var rafvæddur árið 1953 en steinolíulampinn hafður til vara fyrst í stað. Við þessa breytingu var sett á vitann sænska ljóshúsið sem þar er enn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica