Dalatangavitar
  • Dalatangavitar 11.09.2004 017

Dalatangavitar

Otto Wathne útgerðarmaður á Seyðisfirði byggði vita á Dalatanga árið 1895 fyrir eigið fé til að greiða fyrir siglingum til Seyðisfjarðar. Hann sá sjálfur um byggingu vitahússins en danska vitamálastofnunin lagði til ljóstæki, steinolíulampa og spegil til að magna ljós hans. Að byggingu vitans lokinni tók landssjóður að sér rekstur hans.

Viti Ottos Wathne var starfræktur fram til ársins 1908 að núverandi viti var byggður. Húsið hefur nú verið gert upp og nýtur umsjár Þjóðminjasafns Íslands.

Elsti hluti yngri vitans á Dalatanga var byggður árið 1908, ferstrendur kónískur turn úr steinsteypu sem hannaður var af Thorvald Krabbe verkfræðingi. Ljóshúsið var dönsk smíð, sívalt og með lofttúðu þar sem ljósgjafinn var steinolíulampi. Linsan sem magnaði ljós olíulampans var snúningslinsa, 750 mm í þvermál, sem snúið var með lóðagangverki.

Árið 1917 var byggt við vitann þegar settur var upp hljóðviti á Dalatanga. Við hlið turnsins sem hýsti hljóðvitann, og jafnhár ljósvitanum, reis turn fyrir hljóðvitann og til hliðar við hann vélahús með skúrþaki. Hljóðvitinn var tekinn í notkun árið 1918 og sendi dimma tóna sína út í þokuna til ársloka 1992 að notkun hans var hætt.

Ljósvitinn á Dalatanga var rafvæddur árið 1959 og var þá skipt um linsubúnað í honum. Þar var einnig starfræktur radíóviti um langt skeið.

Föst búseta vitavarðar var á Dalatanga frá 1908 til 1994 og var þar byggt íbúðarhús fyrir vitavarðarfjölskylduna auk fjárhúsa og hlöðu vegna búreksturs vitavarðar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica