Bátar - skip

Skrá yfir gamla báta - merkilegir og sumir falir

  • Þorsteinn EA upphaflega, en nú GK 15. Gerður út frá Raufarhöfn, eini Svíþjóðarbáturinn sem til er en eitthvað breyttur – 50 rúml. 1946
  • Bátalónsbátur frá 1971 – 11 tonna dekkbátur er í eigu Halldórs Árnasonar á Patreksfirði s. 4561140.
  • Auðbjörg – fyrst Björgvin EA 75, byggður á Akureyri 1960. Fyrsti frambyggði eikarbáturinn á Íslandi um 27 brl. Níundi báturinn sem fékk kraftblökk. Báturinn var notaður til síldveiða fyrsta sumarið, og var þá í eigu Páls A. Pálssonar (sem nefndur var Hrefnu Palli). Páll var þekktur hvalveiðimaður en þessi bátur var þó aldrei notaður til hrefnuveiða. Í janúar 2007 var báturinn í Slippnum á Skagaströnd og auglýstur falur. Báturinn var brenndur á áramótabrennu á Skagaströnd áramótin 2009-2010. Páll Pálsson, ljósmyndari á Akureyri gaf þessar upplýsingar en hann á smíðalýsingu og myndir af Auðbjörgu.
  • Hólmsteinn GK 20 byggður í Hafnarfirði árið 1946 og er 43 tonn. Lítið eitt breyttur en er í topp standi. Byggðasafni Garðskaga hefur staðið hann til boða, en ekki hefur verið tekin ákvörðun.
  • Aðalbjörg RE 5 er mikið happafley sem á sér langa og merkilega sögu. Hún er með merkustu bátum landsins sem enn er varðveittur – og skipar veigamikinn sess í sögu Reykjavíkur. Aðalbjörg er eikarbátur, um 30 tonn, smíðaðuð í Reykjavík veturinn 1934-35. Framkvæmdin var að tilstuðlan bæjarstjórnar Reykjavíkur, vegna slæms atvinnuástands í bænum og átti að vera liður í viðleitni til „að koma skipa- og bátasmíðum að nýju á innlendar hendur, eins og hjer var fyrir rúmum mannsaldri síðan“, líkt og segir í fundargerð bæjarstjórnar.

    Aðalbjörgin var gerð út sem vertíðarbátur í rúma hálfa öld, á árunum 1935 til 1986 – og allan þann tíma frá Reykjavík. Hún reyndist mikið aflaskip og voru eigendur hennar jafnframt brautryðjendur á ýmsum sviðum útgerðar. Einar Sigurðsson frá Steinum (f. 1906, d. 1977) var skipstjóri á Aðalbjörgu frá fyrstu tíð og til ársins 1973, er synir hans Stefán og Guðbjartur tóku við.

    Eintök björgunarsaga er tengist Einari á Aðalbjörgu er annáluð. Í októbermánuði 1944 björguðu Einar og hópur hermanna bandamanna, hvorki meira né minna en 198 manns af kanadíska tundurspillinum Skeena sem strandað hafði við Viðey með 213 manns innanborðs. Þetta var ein stærsta björgun á sjó við Ísland fyrr og síðar og hlaut Einar orðu frá Georg VI. Bretakonungi fyrir afrekið.

    Fljótlega eftir að Aðalbjörginni var lagt, árið 1986, gáfu eigendurnir hana Reykjavíkurborg til varðveislu á Árbæjarsafni. Þegar skipið fór úr bátanaust, voru tekin úr því möstrin og bómurnar sem voru úr járni. Smíðuð voru möstur og bómur úr við og aðrir fylgihlutir í sinni upprunalegu mynd. Þá ber að geta þess að enn er mögulegt að fá ýmsa varahluti í bátinn, svo sem tilheyrandi vélbúnaði. Um aldamótin fór fram töluverð viðgerð á Aðalbjörgu, sem var til sýnis niður við Miðbakka sumarið 2000. Að því loknu var hún en flutt aftur í Árbæjarsafn. Á döfinni hefur verið að bæta aðstöðuna á sýningarsvæði Aðalbjargar í Árbæjarsafni, m.a. að hlaða hafnarkant og útbúa tjörn. Þær hugmyndir hafa enn ekki komist í framkvæmd.




Þetta vefsvæði byggir á Eplica