Safnaráð sendi stjórn SÍS erindi í byrjun maí og óskaði eftir umsögn sambandsins um Akranesmálið svokallaða og er það birt hér.
Safnaráð sendi stjórn SÍS erindi í byrjun maí og óskaði eftir umsögn sambandsins um Akranesmálið svokallaða og er það birt hér.
Umsögn stjórnar Sambands íslenskra sjóminjasafna (SÍS) um
samning um útvistun og starfsemi Byggðasafnsins að Görðum
Akranesi.
Í 2. gr. laga sambandsins segir að markmið þess séu m.a. að
efla og skipuleggja varðveislu sjóminja og standa að
sameiginlegri kynningu þeirra á landsvísu. Með vísan í þessi
markmið leyfir stjórn SÍS sér að álykta um málefni
Byggðasafnsins að Görðum.
Stjórn Sambands íslenskra sjóminjasafna lýsir áhyggjum sínum
af framtíð Byggðasafnsins sem sjóminjasafns og því að
bátarkostur þess verði aðskilinn safninu með nýjum
rekstrarsamningi.
Það má telja mjög varhugavert að slíta bátana úr samhengi
við aðrar sjóminjar safnsins og skilja umsjá og umönnun
þeirra frá deglegum rekstri þess. Bæði er sjávarútvegur og
varðveisla sjóminja órjúfanlegur hluti sögu Akraness og svo
virðist sem tilvera bátanna á safninu hafa verið kjölfestan
í starfsemi þess og helsta aðdráttarafl fyrir ferðamenn.
Ljóst er að hér er um mikil menningarverðmæti að tefla,
hluta af skipasmíðaarfi þjóðarinnar, sem alls ekki mega fara
forgörðum og hlúa þarf að með virðingu fyrir hinu gamla
handverki og sögu sjósóknar og er það vart á færi annarra en
fagmanna.
Til þess er hinu hefðbundna safni og hæfum starfsmönnum
þess best treystandi eins og reynslan hefur kennt.
Byggðasafnið að Görðum hefur átt aðild að Sambandi
íslenskra sjóminjasafna frá stofnun sambandsins haustið
2006. Aðildarrétt eiga öll þau söfn sem skilgreina má sem
sjóminjasöfn og er viðmiðunin sú að amk 60% af safnkosti
og sýningum séu sjóminjar. Með væntanlegu nýju
fyrirkomulagi í rekstri Byggðasafnsins í Görðum, þar sem
bátakosturinn er undanskilinn, léki vafi á því að að
safnið uppfylli fyrrgreinda skilgreiningu. Gæti það orðið
mjög til baga fyrir safnið og fyrrnefnd markmið SÍS.
Stjórn SÍS fjallaði um umræddan samning á fundi sínum 22.
apríl 2009 og sendi bæjarstjórn Akraness bréf þann 24. þar
sem ofangreind atriði komu fram.
Siglufirði 6. maí 2009
Fyrir hönd stjórnar Sambands íslenskra sjóminjasafna,
___________________________________
Örlygur Kristfinnsson