Siglunesviti
  • Siglunes-vef

Siglunesviti

Sumarið 1908 var Siglunesviti byggður og tekinn í notkun það sama ár.  Þetta var fyrsti viti á Norðurlandi. Notuð var teikning og hönnun Thorvalds Krabbe á Dalatangarvita að undanskildu sambyggðu íbúðarhúsi.

Ekki er vitað hver stjórnaði vitabyggingunni en heimild er fyrir því að Siglnesingar komu að verki og að þeir fluttu steypumöl á hestum úr fjöru.

Vitahúsið, byggt úr steinsteypu, er 6.5 metrar að hæð og ofan á það var sett ljóshús með snúningslinsum úr gamla vitanum á Reykjanesi, mannvirkið alls 9.7 m. hátt.  Ljósið kom frá steinolíulampa og snúningi linsanna stýrði búnaður sem trekktur var upp með lóðum í keðjum eins og klukkuverk.

Siglunesviti var í upphafi hvítmálaður með rauðri rönd ofarlega á veggjum eins og áður getur. Síðar var hann málaður gulur og enn síðar rauðgulur.

Margar breytingar hafa verið gerðar á tækjakosti Siglunesvita á 100 árum. Gas varð ljósgjafi og snúningsafl linsunnar 1926. Árið 1961 var vitinn rafvæddur og fékk straum frá ljósavélum fram til 1992. Þá var gamla snúningslinsan tekin niður og í hennar stað sett plastlinsa og ljósið hefur síðan skinið frá sólar-rafbúnaði.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica